Á Drekadeild eru börn fædd árið 2020 – 2021, við upphaf skólaárs voru 14 nemendur á Drekadeild. Starfsfólk á deildinni er Marta deildarstjóri, Anna G, Ewa, Sandra og Freyja.
Mikilvægt er að börn fái jákvæða upplifun af því að vera í leikskóla og finni stuðning og beri traust til starfsfólks. Það er ekki síður mikilvægt að foreldrar fái jákvæða upplifun af leikskólanum og því leggjum við mikla áherslu á að eiga í góðum samskiptum og samvinnu við foreldra.
Við erum ekki með fast dagskipulag þar sem starfið okkar er breytilegt og lifandi. Við styðjumst þó við þetta skipulag og aðlögum eftir þörfum.
Við leggjum upp með að börn læri í gegnum leik og hafa börnin aðgang að fjölbreyttum efnivið eins og bókum, skynjun, kubbum, hlutverkaleikjum, könnunarleik, tónlist, hreyfingu, föndri og liti/málningu. Einu sinni í viku er hreyfistund inná deild þar spilum við tónlist, börnin fá að leika sér, dansa, hlaupa, farið í leiki og gerðar æfingar. Málörvun er rauður þráður í gegnum starfið á deildinni og reynum við eftir fremsta megni að setja orð á allar athafnir yfir daginn, bæði í leik og daglegri umönnun barnanna.
Yfir veturinn fylgjum við eftir svokallaðri Tímalínu. Í Tímalínunni eru sett upp þema og eru verkefni gerð í samræmi við þemað. Þar eru einnig lög, leikir, tákn/orð, Lubbi finnur málbein og bækur sem við fylgjum eftir í hverri viku. Tímalínan er aðgengileg hér á heimasíðu okkar.
Á hverjum degi er samverustund. Þar skiptum við börnunum í tvo hópa og í þessum stundum er áhersla lögð á málörvun með því t.d. að syngja, telja, læra form og liti, dagar og mánuði. Börnin taka þátt eftir þeirra getu og tíminn sem þau sitja í þessum stundum eykst með aldri og getu. Allar deildir leikskólans vinna með Lubbi finnur málbein þar sem unnið er með íslensku málhljóðin í gegnum sögur, vísur og hreyfingu/tákn.
Útivera er mikilvægur partur af starfinu okkar á Drekadeild og reynum við að fara í útiveru einu sinni til tvisvar yfir daginn. Einnig förum við í gönguferðir og könnum nærumhverfi okkar. Við förum í útikennslu einu sinni í viku, þar skiptum við börnunum í tvo hópa. Í útikennslu notum við nærumhverfið okkar sem kennslustofu þar sem við rannsökum umhverfið, eflum hreyfiþroskann og kynnumst náttúrunni.
Þegar börnin eiga afmæli er haldið upp á það á deildinni. Sunginn er afmælissöngur fyrir barnið, fær það kórónu, kveikt er á kertum og barnið býður upp á ávaxtanammi. Börnin fá að velja sér borðbúnað á afmælisdaginn. Ekki er leyfilegt að koma með neitt að heiman í tilefni dagsins.