Músadeild

Á Músadeild eru börn fædd árið 2022-2023.

Fjöldi barna verður 10 og starfsmenn á deildinni eru Guðrún Ösp deildarstjóri, Klaudia og Anna W.

Á Músadeild eru börn að hefja skólagöngu sína svo lögð er rík áhersla á aðlögun og að börn og foreldrar fái að kynnast leikskólaumhverfinu í rólegheitum. Á deildinni leggjum við mikið uppúr því að við aðlögum okkur að þörfum barnanna og veitum þeim stuðning og umhyggju í aðlögunarferlinu. Mikilvægt er að börn fái jákvæða upplifun af því að byrja í leikskóla og finni stuðning og beri traust til starfsfólks. Það er ekki síður mikilvægt að foreldrar fái jákvæða upplifun af leikskólanum og því leggjum við mikla áherslu á að eiga í góðum samskiptum og samvinnu við foreldra.

Börnin á Músadeild eru ung og því fer mikill tími dagsins í hinar daglegu venjur. Dagskipulagið okkar er því mjög lifandi og breytilegt þó að við styðjumst við ákveðin ramma. Við leggjum upp með að börn læri í gegnum leik og hafa börnin aðgang að fjölbreyttum efnivið eins og í bókum, skynjun, kubbum, hlutverkaleikjum, könnunarleik, tónlist, hreyfingu, föndri og lita/mála. Einu sinni í viku erum við með hreyfistund þar sem við spilum tónlist, börnin fá að rannsaka umhverfið, leika sér, dansa, hlaupa, fara í leiki og gerðar æfingar sem henta þroska barnanna.

Málörvun er svo rauði þráðurinn í gegnum starfið á deildinni og reynum við eftir fremsta megni að setja orð á allar athafnir yfir daginn, bæði í leik og daglegri umönnun barnanna. Á hverjum degi er samverustund/ávaxtastund en þar er börnunum skipt í tvo hópa. Í þessum stundum er áhersla lögð á málörvun með því til dæmis að syngja saman, klappa nöfnin og telja fingur og tær. Börnin taka þátt eftir þeirra getu og tíminn sem þau sitja í þessum stundum eykst eftir aldri og getu. Allar deildir leikskólans vinna svo með Lubbi finnur málbein þar sem unnið er með íslensku málhljóðin í gegnum sögur, tónlist og hreyfingu/tákn. Á Músadeild hefst þessi vinna og byrjum við hægt og rólega að kynna Lubba inn í starfið með börnunum.

Útivera er mikilvægur partur af starfinu okkar á Músadeild og reynum við að fara út að leika einu sinni til tvisvar yfir daginn. Einnig förum við í gönguferðir og könnum nærumhverfi okkar, bæði með börnin í kerrum og gangandi eftir því sem við á og getu barna.