Á Ugludeild eru börn fædd árið 2021 - 2022. Fjöldi barna eru 12 og starfsmenn á deildinni eru: Sigurborg Knarran Deildarstjóri, Anna K, Svetlana og Steinunn.
Mikilvægt er að börn fái jákvæða upplifun af því að vera í leikskóla og finni stuðning og beri traust til starfsfólks. Það er ekki síður mikilvægt að foreldrar fái jákvæða upplifun af leikskólanum og því leggjum við mikla áherslu á að eiga í góðum samskiptum og samvinnu við foreldra. Ekki hika við að hafa samband við starfsfólk á deildinni ef þið hafið einhverjar spurningar eða viljið ræða eitthvað sem tengist barninu eða leikskólanum.
Valfundir er tími þar sem við setjumst niður og krakkar fá að velja það sem þau vilja gera, leika inni eða úti.
Hópatímar er tími þar sem við skiptum hópnum upp í 3 minni hópa. Hópstjóri skipuleggur og framkvæmir fjölbreytt viðfansefni fyrir sinn hóp.
Á hverjum degi er samverustund. Þar skiptum við börnunum í tvo hópa og í þessum stundum er áhersla lögð á málörvun með því t.d. að syngja, telja, læra form og liti, dagar og mánuði. Börnin taka þátt eftir þeirra getu og tíminn sem þau sitja í þessum stundum eykst með aldri og getu. Allar deildir leikskólans vinna með Lubbi finnur málbein þar sem unnið er með íslensku málhljóðin í gegnum sögur, vísur og hreyfingu/tákn.
Útivera er mikilvægur partur af starfinu okkar á Ugludeild og reynum við að fara í útiveru einu sinni til tvisvar yfir daginn. Einnig förum við í gönguferðir og könnum nærumhverfi okkar. Við förum í útikennslu einu sinni í viku. Í útikennslu notum við nærumhverfið okkar sem kennslustofu þar sem við rannsökum umhverfið, eflum hreyfiþroskann og kynnumst náttúrunni.
Við leggjum upp með að börn læri í gegnum leik og hafa börnin aðgang að fjölbreyttum efnivið eins og bókum, skynjun, kubbum, hlutverkaleikjum, könnunarleik, tónlist, hreyfingu, föndri og liti/málningu. Málörvun er rauður þráður í gegnum starfið á deildinni og reynum við eftir fremsta megni að setja orð á allar athafnir yfir daginn, bæði í leik og daglegri umönnun barnanna.
Yfir veturinn fylgjum við eftir svokallaðri Tímalínu. Í Tímalínunni eru sett upp þema og eru verkefni gerð í samræmi við þemað. Þar eru einnig lög, leikir, tákn/orð, Lubbi finnur málbein og bækur sem við fylgjum eftir í hverri viku.
Þegar börnin eiga afmæli er haldið upp á það á deildinni. Sunginn er afmælissöngur fyrir barnið, fær það kórónu, kveikt er á kertum og barnið býður upp á ávaxtanammi. Ekki er leyfilegt að koma með neitt að heiman í tilefni dagsins.
Við notum forritið Karellen til þess að skrá mætingu, svefn og máltíðir barnanna. Þar eru einnig settar inn myndir af börnunum reglulega. Þar er hægt að senda skilaboð á leikskólann en ef skilaboðin eru áríðandi og þurfa að komast til skila strax að morgni er betra að hringja.
Leikskólinn er vinnustaður barnsins og því viljum við biðja ykkur um að velja fatnað í samræmi við það. Hann þarf að vera þægilegur og gott að hreyfa sig í honum og þola ýmis óhöpp, t.d. málningu og lím. Einnig þarf að vera nóg af aukafötum til staðar ef börnin blotna t.d. í útiveru.