Fréttabréf - desember 2025
Haustið hefur verið viðburðaríkt hjá okkur á Sólvöllum og nóg um að vera. Við ætlum að reyna vera stuttorð en margt sem hefur verið í gangi sem gaman er að segja frá.
Í flipanum í hægra horninu má fara yfir í gæðaviðmiðin en gæðaráð Sólvalla fundar reglulega yfir skólaárið og metur stöðuna hvernig gengur að vinna eftir settum markmiðum. Samhliða því höfum við einnig verið að innleiða nýju einkunnarorðin okkar: virðing, gleði, samvinna og náttúra.
Í haust höfum við verið í samstarfi við símenntunarstöð Vesturlands. Samstarfið felst í því að þróa nám í íslensku fyrir erlent starfsfólk og erum við frumkvöðlar verkefnisins. Námskeiðið byggist þannig upp að starfsfólk lærir að eigin frumkvæði og er leikskólinn orðinn að lærdómssamfélagi þar sem allir eru á jafningjagrundvelli að æfa sig og leiðbeina hvort annað við réttan framburð og aukinn orðaforða.
Við hófum markvissa vinnu við að innleiða Grænfánann og fór haustönnin í að taka stöðuna hvar við stöndum í dag og setja okkur markmið hvar við viljum byrja. Við höfum m.a. sett okkur markmið að skoða hvaðan maturinn kemur, flokka rusl og ræða um veðrið og læra ný orð sem tengjast útiveru. Skiptibókamarkaðurinn er eitt af skrefunum í grænfánaverkefninu og eftir áramót stefnum á að hafa skipti fatamarkað. Við höfum einnig verið með bókapoka sem börn geta fengið að láni heim og hafa verið mjög góðar viðtökur við þeirri viðbót.
Við erum einnig búin að taka stöðuna hvar við stöndum varðandi heilsueflandi leikskóla og eftir áramót munum við setja okkur markmið og vinna enn markvissara að því að verða heilsueflandi leikskóli.
Í nóvember héldum við starfsmannafund þar sem við kynntum okkur hæglátt leikskólastarf og starfsfólk setti sér markmið sem tengjast því, hvar við ætlum að byrja í innleiðingunni. Markmiðin okkar með innleiðingunni er að m.a. minnka streitu bæði fyrir börn og starfsfólk, hafa rólegra námsumhverfi, að börnin stjórni ferðinni meira á þeirra forsendum (innan skynsamlegra marka 🙂) og síðast en ekki síst að leikurinn sé settur í forgrunn í öllu okkar starfi.
Við höfum aukið opinn efnivið og fengum fyrirlestur frá Maríu Ösp leikskólastjóra leikskólans Árbæ á Selfossi en sá leikskóli er kominn langt í vinnu með sjálfbærni, opinn efnivið og útikennslu. Mjög lærdómrsíkt og hlökkum við til að taka fleiri skref í að auka opinn efnivið, sjálfbærni og sköpun en við höfum nú þegar aukið útikennslu mikið og erum stolt af því sem hefur áunnist í vetur.
Á föstudögum höfum við verið með uppbrot. Þá höfum við samnýtt starfsfólk milli deilda og verið með dagskrá allar deildir leikskólans, s.s. í jóga, skipulögðu flæði þar sem settar eru upp stöðvar og börnin velja sér eftir áhuga hvar þau vilja leika og hversu lengi þau vilja dvelja á hverri stöð auk þess erum við samsöng á þriggja vikna fresti. Þetta hefur náð að festast vel í sessi hjá okkur í vetur sem er ánægjulegt að sjá og við hlökkum til að halda áfram eftir áramót.
Nú á haustmánuðum höfum við verið að endurskoða tímalínuna okkar með það markmiði að hún sé auðlesanlegri og skýrari. Við höfum því skipt henni niður í smærri hluta og munum kynna efni hennar jafnt og þétt yfir önnina. Hlökkum til að sýna ykkur afraksturinn í janúar!
Í ár varð einnig nýbreytni með jólagjafirnar þar sem við erum að vinna með aukið lýðræði hjá börnunum. Á Ugludeild fengu börnin val um nokkra hluti til þess að setja í jólagjöf til foreldra og var það dreift hvað börnin völdu. Á Drekadeild fengu börnin algjörlega frjálsar hendur og er afraksturinn ansi fjölbreyttar gjafir sem koma beint frá hjartanu út frá hugmyndaflugi barnanna.
Að lokum langar okkur að þakka starfsfólki fyrir sitt framlag í vetur og jákvæðu viðhorfi fyrir öllum þeim verkefnum og breytingum sem við höfum verið í undanfarið. Með þeirra viðhorfi, eljusemi og dugnaði höfum við byggt upp flott leikskólastarf sem við erum stolt af og hlökkum til að halda áfram á sömu vegferð.
Bestu kveðjur,
Starfsfólk Sólvalla
